21.10.2008 | 21:34
Indverskt
í morgun gat ég bara ekki vaknað, sama hvað ég reyndi og lamdi mig andlega. Endaði með því að ég svaf í 14 tíma! Hvað á það að þýða?
Held þetta þýði bara eitt. Ég get ekki verið að sosíalisera svona mikið um helgar. Og næturdýrið í mér verður bara að halda kjafti og geymast inni í skáp þangað til í fríum.
Þessar uppgötvanir hafa gert það að verkum að ég er frekar viðskotaill í dag. Eins gott að ég var bara heima og rakst ekki á neinn!
Núna er Elfa hins vegar komin til mín aftur og ég reyni að halda aftur af mér en er samt búin að snappa einu sinni á garnið mitt sem ég var að vefja í hnykil og einu sinni á föt sem eru í stóra kassanum því ég var að leita að einhverri einni sérstakri flík sem ég var ekki að finna.
Er ekki líkt mér að snappa svona auðveldlega.
Það eina merkilega sem ég gerði í dag var að taka til í fataskápnum mínum og herberginu mínu, elda indverskt, komast að því að ég er að deita Tom Waits og líka hann Gregory í garðinum, að ég sé að verða fasistaballerína og hugsa heil ósköpin öll.
Mun svo mæta í skólan á morgun þar sem ég mun þurfa að útskýra fjarveru mína í dag. Er að pæla í að segja þeim að ég hafi bara hreinlega ekki vaknað og ekki með nokkru móti getað það, sama hvað ég reyndi. Og ef þau verða með eitthvað vesen ætla ég að reyna að vera róleg og útskýra fyrir þeim að ég sé nú búin að vera að mæta í skólan þó ég sé búin að vera drullukvefuð í tvær vikur.
Þetta verður fróðlegt.
En svona til að bæta fyrir þetta leiðinlega blogg þá ætla ég að láta hérna fylgja indverskan rétt sem er mjög góður og ég borða svona einu sinni í viku.
Kjúklingur, helst bringur.
Tikka masala sósa úr krukku.
2 matskeiðar hnetusmjör
chili pipar þurrkaður, eftir smekk
hvítlauksduft (ferskur hvítlaukur í fínni útgáfunni), eftir smekk
hálfur laukur
það grænmeti sem til er
Byrjað að steikja laukinn þangað til hann er orðin soldið linur. kjúklingabringurnar skornar í bita (og steiktar ef þetta er ekki foreldaður kjúklingur) og hent á pönnuna þegar laukurinn er einmitt orðin hálflinur. Smá hvítlauksdufti hent yfir laukinn og kjúklinginn. Þetta steikt þangað til að kjúklingurinn er farin að brúnast aðeins og laukurinn líka. Þá er sósunni helt út á pönnuna og hnetusmjörinu hent í líka, sem og chiliinu. Svo er grænmetinu bætt í smám saman eftir það og þetta látið malla aðeins.
Mæli með cherry-tómötum í þetta og að setja þá heila út í þetta. Gefur skemmtilega tilbreytingu á meðan maður gæðir sér á þessu. Gott líka að nota gulrætur, gular baunir, sveppi, epli, ananas, papriku, hugsanlega rúsínur, kúrbít, svo eitthvað sé nefnt. Verður auðvitað sætara ef ávextirnir eru notaðir þannig ef bragðlaukarnir fíla það ekki þá er um að gera að nota það ekkert. Svo náttúrulega sjóða hrísgrjón með þessu og þá er þetta orðin fínasta máltíð fyrir nokkra eða í nokkur mál. Og hnetusmjörið er galdrahráefnið í þessu! Hammananammnamm!
En þá er það ekki fleira að sinni.
Yfir og út.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.