8.6.2009 | 22:35
Eftirbruni
Og þá er maður loksins búin að sofa smá.
Prófið á föstudaginn gekk bara vel og var í heilidina nokkuð gott próf, nema að bjölluhringjararnir voru lélegir. Þeir sem sagt eiga að sjá til þess að áhorfendur verði ekki varir við okkur hlaupandi um alla bygginguna að skipta um búninga eða þeystast með leikmyndir á milli hæða á meðan þeir rölta á milli sýningasvæða. En annars var þetta gott próf.
Á föstudagskveldið skakkalappaðist maður svo heim þegar búið var að ganga frá, sötraði smá bjór og sofnaði síðan eins og steinn. En bara til að vakna kl 9:00 morguninn eftir og dragnast í skólann aftur til að sýna eitt verkið aftur fyrir hugsanlega verðandi nemendur sem voru að skoða skólan á opnum degi. Það var alveg skemmtilegt en jeminn hvað líkaminn var algerlega mótfallin þessu. Það var búið að lofa hvíld og svo er bara svikið það! já svona er maður nú illgjarn. Fengum nefnilega ekki að vita fyrr en prófið var búið að það ætti að sýna einhverjar sýningar daginn eftir.
Svo kom ég heim og þá greip eitthvað þrifnaðaræði okkur íbúana hér á Framabraut og við þrifum meiriháttar sjúklega vel! Erum örugglega eina fólkið í heiminum sem notar fyrsta frídaginn sinn í margar vikur í að taka stórhreingerningu! Svo eldaði Unnar appelsínukjúkling og Aron bakaði eplapæ og ég splæsti í ís og sósu og haldin var mini-veisla hérna og svo horfðum við á dvd. Okkur var reyndar boðið í partý til sænsku stelpnanna í bekknum en við bara innilega nenntum ekki og vorum sofnuð frekar snemma öll.
Á sunnudaginn fór ég í fýluferð niður í bæ í Primark þar sem ég komst að því að ég ætti engan pening eftir. Jei! Fór þá bara aftur heim og var nokkuð dugleg að læra og ætlaði svo að fara að taka til í herberginu mínu (sem hafði orðið útundan daginn áður) en endaði á að drasla bara meira til þar sem ég ákvað að máta bara öll fötin mín og skilja þau eftir út um allt gólf...já ég veit ég veit það er illa farið með þau en þetta er bara svo kósi! eða þannig! Svo saumaði ég til eitt pils sem er mega æðislegt núna! Svo át ég líka allan daginn. Frekar skrítinn dagur.
Núna eru bara 4 dagar í að maður komi í stutt sumarfrí heim og er ég orðin svo óþreyjufull að ég er að drepast úr eyrðarleysi og nennuleysi! Hroðalegt alveg hreint. Sérstaklega þar sem það eru nokkur assessment í þessari viku. Í dag var t.d. Voice assessment og History of Art assessment. Listasagan gekk ekki alveg nógu vel enda var ég algerlega laus við inspírasjón í því og vara bara að gera skyldu mína og klára þetta af. En ég er búin að heita því að gera betur næst. Voice gekk hinsvega alveg nokkuð vel. Var að einbeita mér að því að gera t, p og k ekki of hörð...Jájá það er víst til eitthvað sem heitir að tala ensku OF skýrt og það hrjáir nokkra íslendinga hérna. Ég var frekar móðguð fyrst því mér hafði alltaf verið kennt að tala sem skýrast sama hvaða tungumál maður er að tala (nema kannski frönsku). En núna reynir maður að gera lífið fyrir tunguna sína aðeins auðveldara með því að rétt tylla henni á aviolar ridge til að segja T og svo notar maður líka miklu minna loft í það og getur þá notað það í einhver önnur hljóð. Næst á dagskrá er að læra að segja S með rödd.
Já svona er lífið þessa dagana. Maður reynir að sinna skyldum sínum en langar líka bara til að vera komin í frí og fá að hvíla sig og svo er maður fúll út í sjálfan sig að vera ekki að gera betur. Meiri vitleysan í manni!
En núna ætla ég að hætta að blaðra við engan og kannski bara fara að sofa á skikkanlegum tíma.
Súlsúl!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.