Recap!


Já góðan bandóðan daginn!

Ég er semsagt lúðinn sem þykist vera bloggari en bloggar svo ekkert í mánuð (mínus einn dag)!!!

Reyndar er ég búin að vera frekar andlaus. Var bara í fríi og svo bara að kick-starta önninni og svona (allt mjög sýnilegar og þægilegar afsakanir!).

Látum okkur nú sjá, hvað er búið að vera að gerast hérna hjá manni í útlöndum...

Fór til annarra útlanda í fríinu. Fór til Vínar að hitta hana Erlu Dóru mína og það var mega næs. Átti lítinn pening en náði að gera mega mikið, auk þess sem Erla Dóra er meistarakokkur og alls ekki löt við að sýna snilli sína. Svo var borgin skoðuð svona léttilega, heimsótt Beethoven, Strauss, Schönberg, Brahms og Schubert (frekar en Schumann held ég) í kirkjugarðinn sem er með fleiri gröfum en íbúar Vínarborgar eru. Svo var borðað Vínarschnitzel með vínversku kartöflusalati sem mér fannst alveg ágætt. Fórum 2x í óperuna á Falstaff, sem var bara svona semi-góð, og svo Eugene Onegin sem var með mjög fínum söngvurum og nokkuð töff leikmynd en algerlega laus við leikstjórn sem var soldill galli. Á Evgení Ónegín var líka crazy-gaur fyrir aftan okkur sem hló hrossahlátri á öllum viðkvæmustu augnablikunum og talaði svo slatta við sjálfan sig. Fyrir framan okkur voru svo tveir gaurar sem voru pínu pirraðir á þessu fyrir hlé en höfðu svo grenilega verið að vinna sig upp í pirrleika í hléinu því eftir hlé mátti enginn hósta hinum megin í salnum án þess að þeir hvesstu augun í átt að þeim og skutu eldingum með þeim! Ég hélt ég myndi pissa á mig af hlátri! Þá var hvesst augun á mig...svo hló crazy gaurinn aftur og þá var þeim öllum lokið og þeir hristu hausana sína restina af sýningunni.
Svo fórum við og löbbuðum meðfram Dóná og við Erla Dóra ákváðum að í framtíðinni myndum við eiga saman sumarhús þarna. Verð að kíkja þarna einhverntíman yfir sumartíma. Var ekkert smá rómantískt og kósí :o) Plús það að það var hægt að fá mega vellyktandi og girnileg rif á veitingastað þarna við fljótið! Smakkaði þau því miður ekki en ég hef fulla trú á þeim!
Hitti líka Svenna, Elínu og Júlla og við borðuðum saman mjög góðan ítalskan og fórum svo í pool mínus Svenni plús Rannveig. Ég grúttapaði!
Við skoðuðum líka Schönbrunn og það var mjög fróðlegt. Voðalegt að ímynda sér hvernig það er að búa svona, að vera aðalsborinn. Hlýtur að vera hroðalega spes, sérstaklega ef þú giftist inn í þetta! Mæli með að skoða þessa höll. Svo er hallargarðurinn æði líka. Við ákváðum að labba upp að Gloríunni og þegar við vorum rétt svo komin fyrsta spölinn þá brast á haglél af innilegum krafti! Við vorum ekki vel klædd! En við komumst upp og um leið og við stigum inn á kaffihúsið í Gloríunni þá hætti haglið og ekki sást meira til neinnar gerðar af snjó eftir það! Á leiðinni niður urðum við svo vitni að mjög lífsglöðu barni sem hljóp á hundarð niður brekkuna hrópandi AAAAAAAAAAAA alla leiðina og naut þess svo að við gátum ekki annað en grátið úr hlátri!
Svo var kíkt á markað, aðeins í búðir og haft það næs. Held ég sé ekki að gleyma neinu mikilvægu.

Svo þegar ég kom heim þá beið Fanney mín hérna og við áttum góða daga saman við dvd-gláp, spjall og bæjarrölt, já og borða góðan mat :oP Það voru æðislegir dagar! Sakna hennar stundum svo mikið, en þetta er víst bara hluti af því að fullorðnast.

Svo byrjaði skólinn á sprengingu því við þurftum að taka til í skólanum út af einhverri nefnd sem metur skólann svo við höldum áfram að geta kallað okkur háskóla jú og svo við komumst nær því að vera mega últra heavy háskóli ;o) Skilst að þetta sé eini skólinn í Bretalandi sem er með þessa háskólaskilgreiningu, sem ég veit ekki hver er en ætti kannski að reyna að komast að hvað felur í sér, og það er víst voða merkilegt.....kannski ég reyni bara að komast að því hvað er verið að meina áður en ég tala meira um þetta :oÞ Svo æfðum við líka Gilitrutt og Affirmation til að sýna nefndinni hvað við erum klár. Fengum í framhaldi að vita að það er 99% öruggt að Gilitrutt fari á Edinborgarhátíðina í sumar! Jibbí!

Já, skólinn er semsagt að fara á Edinborgarhátíðina, eða réttara sagt þá setjum við á fót starfandi leikhús sem fer á hátíðina og bara við nemendurnir sjáum um að reka leikhúsið og redda öllu sem þarf að redda fyrir svona ferð. Þetta er því alfarið á okkar ábyrgð og við lærum þá bara algerlega beint í æð að reka leikhús og koma því á milli staða. Voða hentugt! Svo er bara að bíða og vona að maður fái eitthvað bitastætt (svona miðað við að vera fyrsta árs nemi) í stóra leikritinu sem við förum með, en það verður The Caucasian Chalk Circle eftir Brecht og verður það æft í júní og júlí og svo bara hátíðin! Yeah baby!

Annars erum við á fyrsta ári núna að greina Still Life eftir Noel Coward sem við munum líka setja upp í sumar en það fer ekki á hátíðina því við erum bara kjánalegir fyrsta árs nemar sem kunna ekki neitt! Nei djók! Nema að það fer ekki á hátíðina en við munum sýna það hérna í London.

Eins og sjá má er allt á fullu. Ég reyndar sé ekki fram á að vera í eins mörgum verkefnum og á seinustu önn en er þó komin með tvö. Annað þeirra er að syngja Violettu í Brindisi! Hjálpi mér allir heilagir! Það verður samt bara gaman og ég ætla að massa það :o)

Já lömbin mín nær og fjær, það er svo sannarlega gaman að lifa!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband