Færsluflokkur: Bloggar

Stikl


Enn og aftur er maður búin á því! Held samt að sósíalísering seinustu tveggja kvelda geti haft eitthvað með það að gera. Er búin að vera að koma heim um 11-leytið og á þá eftir að gera allt sem ég geri venjulega á kveldin OG að sofa nóg - sem hefur ekki verið að takast.

Krónan í stuði. Finnst greinilega agalega gaman að rússíbanast. Maður bara fær smá sjokk en andar svo bara með nefninu.

Í skólanum í dag lærði ég að uppáhaldsdýrin okkar segja mikið um okkur, ný stepp-spor og svo að dansa Allemande (held það sé skrifað svona). Skemmtilegur dagur.

Svo kom ég heim og þar sem ég sat og borðaði kveldmatinn minn heyrði ég brak og bresti og hin fatasláin mín gafst upp (sú fyrri gafst endanlega upp í fyrradag).

Ég andaði út um nefið, tók svo tvær stangir úr þessum slám og sá að þær smellpössuðu á bita í þessum litla fataskáp hérna og þar ætla ég að búa til fatahengi fyrir föt sem þurfa að hanga. Tek svo skúffugrindina út sem er þar inni og hef hana bara úti á gólfi.

Svo þarf ég eiginlega að fá mér skrifborð og tvær svona gráar körfur í viðbót. Held það ætti að redda mér.

En ég nenni innilega ekki að gera neitt í þessu í dag.

Svo er netið með leiðindi hérna núna þannig ég kemst ekki inn á Facebook! Finnst ég voðalega einangruð frá umheiminum. Voða er maður nú skrítinn!

Í gær fór ég í leikhús með fullt af liði úr skólanum. Sáum Ghosts eftir Henrik Ibsen. Leikur vel misgóður! Fílaði leikritið ágætlega og fannst leiðinlegt hvað einn leikarinn var ekki að nýta sér það hráefni sem hann hafði fengið í hendurnar.

Á leiðinni í leikhúsið tók hópurinn songleikjanúmer á meðan beðið var eftir neðanjarðarlestinni. Þar voru Sessý og Mæja í fararbroddi. Svo þegar í lestina var komið var tekið hasarmyndaatriði þar sem Halli og Alex báru þungan af uppákomunni (halli hafði lent í næsta vagni þannig alex bara opnaði hurðirnar tvær á milli og halli stökk yfir). Já og konan við hliðina á mér gaf mér tyggjó.

En ég ætla bara að fara að sofa þar sem netið vill ekki sýna mér Facebook....eða allavega lesa...

Helvítis tímaþjófur þetta net!

Nóttanótt!


Kreppa


Sem námsmaður erlendis hef ég fengið að finna soldið fyrir kreppunni. Leigan mín hefur t.d. hækkað um 20.000 kr. á tveim vikum. það er frekar sárt.

Aðallega bitnar þetta þó á leikhúsferðum, óperuferðum, veitingahúsaferðum og þess háttar.

margir myndu halda að þetta bitnaði á matargæðum, en svo er ekki. Ég er mjög pikkí á mat og gæti aldrei ALDREI aldrei lifað einungis á núðlum. Eða allavega ekki bara núðlum eins og þær koma úr pakkanum.

Hins vegar hef ég seinustu tvö árin orðið ansi lunkin í því að búa til rétti sem kosta ekki æginlega mikið (því þar sem ég var í söngskólanum og fékk ekki lán fyrr en á 8 stigi (sem ég er ekki enn komin á) þannig ég þurfti að vinna með en gat ekki unnið mikið með því söngurinn er alveg hellingsnám þegar maður er komin á 6./7. stig.) Var oft bara með 20.000-30.000 að eyða eftir að ég var búin að borga leigu (sem sagt peningur fyrir mat, skemmtun og þess háttar).

Hef verið að tala um þetta við krakka í skólanum og þeim finnst ég nokkuð úrræðagóð í matarmálum. Því hef ég ákveðið að láta hingað inn við og við uppskriftir sem eru góðar en ódýrar.

T.d. núðlur. Þær eru ódýrar.
Maður sýður núðlurnar. Sker niður það grænmeti sem maður á (mjög æskilegt að eiga a.m.k. lauk því hann er frekar ódýr og gefur gott bragð og ég mæli frekar með rauðlauk). Ágætt að eiga líka kjúkling eða eitthvað álíka (hér á bretlandi fæst niðursoðinn lax sem er líka fínt að nota). Þetta wokar maður á pönnu og finnst mér gott að eiga krukku af minced ginger til að woka með þessu. Gott líka að steikja laukinn aðeins fyrst áður en maður setur rest á pönnu. Svo er bara að henda núðlunum aðeins á pönnuna þegar þær eru soðnar og setja bragðefnið sem fylgdi þeim yfir, og kannski smá chili pipar sem er grófmalaður (eða eitthvað krydd sem ykkur finnst gott og passandi í "kínverskan" rétt).

Í þessu finnst mér engiferinn (ginger) lykilatriði. Einnig er gott að nota soya/sweet chili sauce. Annað lykilatriði er eitthvað með smá prótíni í, eins og kjúklingur eða niðursoðinn lax. Svo hjálpa krydd alltaf til. Bjó þetta t.d. til um daginn bara með núðlum, lauk, lax, engifer þurrkuðum, grófmöluðum chili og það var megagott! Miklu betra en að sjóða núðlurnar bara með duftinu.

Það eru smá útlát að kaupa sósur og krydd, en maður á það alltaf eitthvað áfram og því um að gera að sanka því að sér smám saman.

Vona að þetta hjálpi einhverjum, veit að það hjálpaði honum Halla sem er með mér í skóla.

Annars er fínt að frétta. Einbeiti mér bara að því að finna skemmtun hér í borg sem þarf ekki að kosta mikið.

T;d, á morgun kemst ég á leiksýningu fyrir 5 pund. Ætla svo sannarlega að nýta það. Gaur að leikstýra sem var í ASAD og verðu gaman að sjá hverni það kemur fram.

Skemmti mér stórvel í skólanum sem endranær, en grey voice-kennarinn fer enn soldið í mig, eða kannsi meira tímarnir, sem eru eiginlega ekki nógu vel nýttir. Og svo geta yngstu krakkarnir farið soldið í mann þegar leifar gelgjunnar láta á sér kræla hjá þeim, en maður bara andar í það eins og í jóga.

Er alveg að koma mér fáránlega á óvart í jóganu! Er orðin mun liðugri en ég var á einungis tveim vikum. Lengi lifi öndunin!

Fór svo eftir skóla í dag á pub með Halla og Selmu þar sem er hálfvirðistilboð á pítsum á mánudagskveldum. Og svo happy hour frá 5-7. Þannig við snæddum fínustu pítsur (ótrúlegt en satt) og bjór með á spottprís! Það var virkilega næs og notalegur pub með næs tónlist og businn minn stoppar bara eiginlega beint fyrir utan. Er alveg til í að tékka á honum aftur.

En núna ætti ég virkilega að fara að sofa.

Guten abend, gute nacht!


Prjóni


Í dag vaknaði ég ekki fyrir hádegi. Ég vaknaði tuttugu mínútur yfir það. EN mér var ekki kalt! Það var bara eðlilegt hitastig inni í herberginu. Nokkuð gott.

Hef gert nákvæmlega ekki neitt í dag. Kláraði Tudors-seríuna sem mamma var að panta af Amazon. Horfði líka á uppfærlsu haustsins á Don Giovanni hjá ROH á síðunni þeirra. Það var fínt. Góður söngur og leikur en umgjörðin var frekar þung og leiðinleg fyrir minn smekk.

Prjónaði líka, ójá. Er núna búin að rifja upp hvernig á að prjóna brugðið og hvernig á að ljúka prjóneríi. Og ég er komin með einn og hálfan svona Armwarmers/armahlífar. Saumaði svo meira að segja perlur í þann sem er tilbúin og læti. Svo gerði ég protoýpuna að prjónuðu armbandi. Jáhh geri aðrir betur.

Og eldaði aftur indverska réttinn minn. Hammananamminamm!

Hef líka komist að því að almenningssamgöngur letja mig til ferða. Ég ætlaði að fara að kaupa mér steppskó í dag og taka passamynd af mér en ég vissi að ég þyrfti að hafa fyrir því að ferðast niður í bæ fyrir steppskóna þannig ég nennti því bara ekki. Kemur í hausinn á mér á miðvikudaginn. Er líka bara eiginlega ekki að tíma því því þeir kosta 50 pund og ég gæti farið 4x í leikhús, óperu eða í bíó fyrir það. Og af því ág þarf að kaupa skóna þá mun ég ekki geta leyft mér neitt í þessum mánuði. Dýrt spaug þetta nám sem maður hefur velið sér.

Þarf að fara að koma mér í gírinn að fara eitthvað út um helgar. Fara á kaffihús eða í göngutúr. Bara nenni því svo innilega ekki. En það er svo hollt fyrir sálartetrið víst.

Geri það næstu helgi. Þá VERÐ ég að kaupa steppskó.

Redda passamyndinni á morgun.

Boring blog.

Bæ.


Kaldara


Ég er farin að vakna alltaf fyrir hádegi núna, án þess að vera að reyna það! Held það sé skref í rétta átt, en er alveg til í að vera bara að vakna svona milli 10 og 11 um helgar. Þetta mun verða þróun í slæma átt ef ég fer að vakna fyrr en það þegar ég má sofa út.

Held að hitastigið hafi verið undir frostmarki í herberginu þegar ég vaknaði. Þetta er merkilegur andskoti þessi kuldi og verður víst kaldara inni í húsunum en er úti. Það er spes. Ég brá á það ráð að kveikja bara á svona tuttugu kertum hérna inni og hafa þau smám saman í dag verið að hita herbergið upp.

Ég náði að hífa mig yfir í sófan þar sem ég settist fyrir framan tölvuna mína og fór eitthvað að dunda mér. Hitti Helga á msn og hann fór að senda mér það sem hann er komin með tónlistarlega séð fyrir lokaverkefnið sitt, sem er kvikmyndatónverkið okkar. Ég innspíraðist öll og held ég sé bara eiginlega búin með dansleikhússhlutahandritið í þessu verkefni. Er bara að bíða eftir athugasemdum frá honum.

Þetta tók nú samt merkilega á þannig ég nennti ekkert að vera voða dugleg við að læra. Gerði öndunaræfingar og fór yfir glósur en nennti svo ekki meiru.

Nennti svo einhverra hluta að fara að taka til. Var mjög sátt með það. Hengdi upp myndirnar frá Elfu á væntumþykjuvegginn minn og hann yljar mér um hjartarætur í hvert sinn er ég lít á hann núna! Næs! Bíð eftir fleirum myndum frá ykkur (ég er ekkert ýtin, neinei!)!

Er líka búin að vera voða dugleg að elda í dag. Bjó mér til salat í hádegismat með kjúklingi sem ég steikti upp úr hunangi og hvítlauk. Það var truflað! My!

Er svo að japla á kveldmatnum núna. Það er indverskt (já ég elska indverskt). Keypti einhverja krukkusósu í Tesco og steikti svo rauðlauk og kjúkling, hellti sósunni yfir og bætti út í hnetum, heilum cherry-tómötum og hnetusmjöri. Slurpedíslurp! Er eiginlega næstum því betra en á indverska staðnum í gær! Sötra svo bjór með herlegheitunum og ætla mér að fara að glápa á eitthvað, líklegast House.

Næs kveld í holunni framundan!

Over and out!


Kalt


Í dag vaknaði ég og nefbroddurinn minn var frosinn!

Hélt ég myndi ekki hafa mig úr rúminu en svo spratt ég upp því ég mundi eitthvað....sem ég man ekki núna.

Klæddi mig í fullt af fötum og ákvað að vígja eina af flíspeysukjóladæminu mínu Londonlega séð. Það var GÓÐ hugmynd.

Var mætt í skólann kl. 8 og það var ekki einu sinni búið að opna hann! En ég þurfti bara að bíða í 5 mínútur. Ég náði því að borða morgunmat nr. 1 áður en ég fór í jóga, sem var bara gott! Elska jóga!

Svo var Sofa-tími þar sem ég fann mig samsama mig við Braga á jákvæðan hátt. En fer ekkert nánar út í það hér. Persónulegt stöff sem er í gangi í þeim tímum og fer alls ekki lengra! Allir að kafa ofan í sjálfa sig og finna hluti sem það vissi ekki einu sinni af og svona. Heilaleikfimi!

Söngtími eftir hádegið - Suntanned, windblown, honeymooners at last alone - lag sem ALLIR fyrsta árs nemar raula núna í tíma og ótíma. Ágætt í því svosem. Röddin á mér alveg á leiðinni í gírinn.

Svo fengum við tíma í Ballroom Dancing því Physical Theatre kennarinn okkar forfallaðist. I loved it! Sparkaði í rassa í þeim tíma! Kennarinn notaði mig óspart til að sýna hvernig ætti að dansa þar sem ég var held ég eina stelpan sem hafði gert eitthvað danstengt í mínum hóp. Og my var hann góður að stjórna! Og svo stundum notaði hann aðrar stelpur til að sýna dansa sem ég kunni ekki en endaði svo oftast á því að nota mig aftur til að sýna því ég læt víst svo vel að stjórn. Loksins! Hef náð að vinna burtu dímonana sem fylgdu því að æfa samkvæmisdansa og þurfa alltaf að dansa sem karl! (kannski einhverjar ósýnilegar hugsanir sem hafa fylgt því að kunna bara að dansa sem karl!). Hef átt mjög erfitt að láta að stjórn en núna bara ákvað eg að slappa af og það virkaði líka svona fínt. Hlakka til þegar við förum að stunda Ballroom Dancing tíma!

Og strákar ein ábenging - eitt af því heitasta sem strákar geta gert er að kunna að dansa og kunn að STJÓRNA alminnilega! My!

Fórum svo íslendingarnýnemarnir og Jóhannes Svíi og fengum okkur að borða á Indverska Jazz staðnum nálægt skólanum - já aftur- hann er mega góður! Og við erum orðin svona leiðinlega einhæf í samræðum (eins og t.d. söng í partýjum - náms- og geiratengd umræðuefni og brandarar). En við skemmtum okkur auðvitað stórvel þó ég held að aðrir gestir á staðnum hafi haldið að við værum geð-veik! (frekar lítill staður sem við erum að tala um). Fórum svo heim til Önnu sem er líka svíi og drukkum, sungum og hárgilluðumst!

Kom svo heim núna áðan og þá beið mín fyrsta sendingin á væntumþykjuvegginn og var hún frá Elfu minni sætu. Fullt af myndum og sæta sæta bréf með! Fór að gráta, en þó á góðan hátt. Minningar! Takk Elfa mín! Þú færð verðlaun!

Næs dagur, næs kveld. Keep up the good work!

P.s. ég ætla að skýra væntumþykjuveggsleikinn aftur. Hann gengur sumsé út á það að fólk sendi mér mynd af okkur saman, einhverju sem við höfum gert saman eða bara einhverju sem það heldur að muni gleðja mig. Þarf ekki að vera prentað á einhvern fancy pappír. Mætti mín vegna vera á klósettpappír! Það er hugurinn sem gilfdir!
Allt sem ég fæ sent verður hengt upp á vegg sem ég hef tekið frá fyrir þetta og mun vera kallaður Væntumþykjuveggurinn. Hann er beint fyrir ofan rúmið mitt svo ég geti skoðað hann þegar ég fer að sofa og yljað mér við minningarnar og væntumþykjuna sem sett var í þessar sendingar. Koma svo nú fólk!
Heimilisfang: 37 Havelock Street - N1 0DA - London - UK


Batnandi


Dagurinn í dag er mun bjartari, guði sé lof! Hélt mig samt heima þar sem það virðist vera einhver hitaarða eftir í mér. Nuddaði sjálfa mig vel í gær (og fann í leiðinni upp á ágætri sjálfsnuddsaðferð) og er mun betri í baki, hálsi og öxlum. Ætlaði ekki að ná að sofna fyrir verkjunum!

Er búin að taka til í herberginu mínu og sinninu mínu og skipuleggja mig vel og gera sjálfssamninga og alls konar markmið, skipulagning og samningar komnir upp á vegg!

Er að borða Cashew-hnetur og þær eru mun bragðdaufari en hneturnar sem ég hef borðað heima á Íslandi, en samt fínar. Eitt fyndið samt að þetta er svona poki, BARA með cashew-hnetum og utan á pokanum í innihaldslýsingun stendur: Allergy advice: Recipe: may contain traces of nuts and sesame.

Nei er það! Getur þetta innihaldið hnetur? Skemmtilegt!

Heyrðu Gunnhildur ef þú lest þetta þá get ég ekki kommentað á bloggið þitt! Er búin að reyna milljón skrilljón sinnum en ekkert gengur! Langar svo að vera í bandi! Ertu til í að senda mér emil? jennzla@gmail.com?

Eitt fyndið. Ruslpósturinn sem ég fæ hefur margfaldast síðan ég flutti út! Heima fékk ég svona 2-3 á dag en hérna svona 20-30 á dag. Sem betur fer fer þetta allt bara beint í junk hjá gmail.

Er líka byrjuð að taka aftur B-vítamín og Járn. Á víst að hjálpa manni að vera fullur orku og bjartsýni. Held það gæti alveg verið að virka. Byrjaði samt bara í gær.

Og hjálpi mér allir! Núna kostar pundið 205 krónur!!!! Þetta er helvíti! Hvar endar þetta? Vona bara að ég þurfi ekki að finna einhverja ódýra skítaholu til að borga minna í leigu. Finnst þetta alveg nógu mikil skítahola! Svona er að vera góðu vanur.

Fannst mjög krúttlegt að hann Dennis á skrifstofunni hringdi í morgun til að athuga hvernig mér liði og hvort það væri ekki allt í lagi. Það er passað vel upp á mann í þessum skóla, það er alveg á hreinu. Þannig þó hann sé strangur þá er passað upp á að manni líði vel. Erum með Pastoral Tutor sem við eigum að leita til ef það er eitthvað, bara eitthvað sem við þurfum að ræða eða hjálp með.

Fann loksins í dag partinn af mér sem týndist eiginlega um leið og ég kom hingað út. Er voða fegin! Þá getur þetta bara legið upp á við.

Las líka og hengdi upp á vegg nokkur svona Sönn augnablik-spjöld. Alltaf gott að minna sig á góða speki til að hafa í lífinu.

Hamingja felst í hæfni þinni til að lifa lífinu jákvætt.

Þar hafið þið það!

P.s. ég minni á væntumþykjuveggsleikinn. Hann er enn tómur!


Búin


Í morgun vaknaði ég og var algerlega búin á því.

Hendurnar neituðu að hreyfast, höfuðið sat fast því hálsinn ákvað að breytast í grjót, axlirnar svo stífar að þær límast við eyrun, hryggurinn æjar og óar og öllu þessu fylgir einn sá versti svimi og hausverkur sem ég hef upplifað í nokkur ár!

Og svo er maginn búin að vera í uppreisn seinustu daga.

Þannig ég ákvað að safna þreki og halda mig heima í dag.

Það sem ég hef náð að afreka er að borða súkkulaði og hnetusmjör í óhófi og brauð líka. Allt á bannlista. Reyndar er þetta samt svona með holari óhollustu því súkkulaðið er 70% og það er alveg gott fyrir mann að fá smá súkkulaði, og hnetusmjör er náttúrulega úr hnetum sem eru hollar fyrir mann.

Kannski bara í aðeins minna magni en ég hef verið að innbyrða í dag!

Vildi óska að ég ætti hitakrem....eða nuddara....eða bæði.

Nuddari óskast!

Og fjandans krónuhelvíti! Týpískt að þetta sé að gerast núna! Mér að kenna að drulla mér ekki fyrr í nám hingað út. Vissi einhvernvegin alltaf að ég myndi enda hérna anyways! Drasl!

Lífið er ósanngjarnt!

Já, í dag leyfi ég mér að væla! En bara í dag, svo ekki meir!

Heyrumst á morgun!


Skúrir


Í dag er vont veður, þungskýjað og rigning á köflum.

Krónan veikist hraðar en tilraunarotta efnavopnaframleiðanda.

Mér er illt í maganum og sakna vina minna og fjölskyldu.

Það er alltaf einhver í sturtu hérna þegar ég ætla á klósettið.

Þannig þetta er búin að vera frekar erfiður dagur og þessi atriði hafa verið að hafa kveðjuverkandi áhrif.

En til að líta á björtu hliðarnar þá fékk ég aftur frítt í strætó í dag á leiðinni í skólan.

Átti góðan yoga-tíma.

Skemmti mér vel í jazz-tíma.

Lærði að skylmast og lemja fólk í köku í stage fighting tíma.

Lærði ég haug í viðbót í sofa-tíma plús það að það var nýr kennari í dag og hann lék einmitt í mynd sem við íslendinganýnemarnir fórum á á laugardaginn fyrir viku síðan. Meira að segja ágætlega stórt hlutverk. Það var soldið skemmtilegt. Eitthvað sem maður bjóst alls ekki við. Og hann er súper góður kennari! Fíla hann og Elísabetu en hinar tvær sem hafa verið að kenna okkur fíla ég ekki eins vel því þær virðast ekki vera með efnið jafn mikið á hreinu og hin tvö.

Svo finn ég líka hvernig líkaminn minn er að byrja að verða hreyfanlegri og hreyfanlegri. Er frekar illt víða núna, en á góðan hátt. Brakar og brestur í mér. Soldið svona eins og að koma gömlu gangverki af stað.

Þannig þó ég sé pínu down í dag þá veit ég að það líður hjá og er bara tímabundið.

Myndi samt hjálpa mikið ef að krónan gæti hætt þessum stælum. En það er víst ekki að fara að gerast!

Ætla að finna mér eitthvað að horfa á þar sem ég er búin með Sex and the City, kláraði hana einmitt i gær. Ef einhver veit um góðar streaming-síður (og btw þá er alluc.org það ekki) þá má hann endilega skilja addressuna á það eftir hérna í kommentum.

Over and out!


Labb


Í dag labbaðiég heim úr skólanum og það tók ekki nema 50 mínútur. Fínasti göngutúr í góðu veðri. Jók aðeins á orkuna, en það voru allir voða orkulausir í dag í skólanum, sumir meira að segja bara héldu sig heima veikir.

Voice tíminn í dag hafði hint af Feldenkrais í sér þó ekki væri minnst á það. Mér finnst kennarinn soldið erfiður því hún segir hálfa setningu, stoppar svo í mínútu, klárar setininguna, stoppar svo aftur í mínútu. Getur orðið þreytandi til lengdar en hún er samt voða mikið krútt.

Sofa-tími var frekar tíðindalaus. Ekki einu sinni sett fyrir heimaverkefni. Ég saknaði Elísabetar, en mér finnst hún best af þessum þrem kennurum sem við erum búin að hafa í þessari grein.

Varð tæknilega séð of sein í skólan í dag vegna þess að strætó ákvað að vera bara aaaaaaalls ekki á réttum tíma. Ég beið í 20 mínútur þegar ég átti bara að þurfa að bíða í 8 mínútur í mesta lagi. En þá komu líka þrír og ég þurfti ekki að borga í strætó. Alltaf að líta á björtu hliðarnar! Vona bara að ég muni ekki í staðin þurfa að borga sekt í skólanum.

Eldaði svo túnfiskspaghetti í kveldmatinn. Kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hvað þetta er delicious!

Hausinn er orðin fullur af hugsunum um Complexes, Awareness, Events og fylghlutum þessara þátta og hvernig þetta tengist nú allt saman. Námsefnið verður þyngra með hverjum deginum og maður verður að fylgjast vel með í tímum til að detta ekki út. Og maður fer aftur í gegnum þetta á öðru og þriðja ári, bara svona svo þetta setjist örugglega í okkur og sitji sem fastast. Ég er farin að hlakka til að reyna þetta í action og líka að sjá hvar þetta endar og hvernig verður að vinna með þetta.

Þetta nám fær mann líka til að hugsa endalaust mikið. Eins og ég hugsaði ekki nóg fyrir! En það góða við það er líka að það kennir manni að klára hugsarnir og díla við þær. Maður er að fara í gegnum mikla sjálfsskoðun hérna, ójá. Ég er búin að gera þó nokkrar uppgötvanir um hugsanir sem ég hafði ekki hugmynd um að leyndust í mér!

Og ég ætla núna að reyna að labba á hverjum degi. Hélt ég myndi missa alltof mikin tíma við það að labba heim úr skólanum en ég á meira að segja aukahálftíma eftir áður en ég fer í sturtu og svo að læra. Einstaklega hressandi uppgötvun! Verð reyndar að sleppa því á föstudögum því það eru Tesco-dagar. Maður verður nú að borða eitthvað líka.

Er að reyna að hætta að borða nammi. Það er mega erfitt! Sérstaklega því það fer svo mikil orka í skólann hjá manni núna. En ef ég á ekkert nammi þá borða ég það ekki og ég er rosalega dugleg að halda aftur af mér við að kaupa það. En ég ætla samt að biðja Kolla og kannski Elfu um að grípa með sér smá lakkrís þegar þau koma, sakna hans mest af öllu nammi.

En nóg um það, sturtan kallar!

yfir og út!


Heimanám


Búin að vera dugleg að læra heima núna um helgina. En það er ekki búið. Ætla að byrja á fyrstu bókinni á leslistanum, bók sem vill svo heppilega til að ég stal af mömmu og hafði með mér út - The Empty Space.

Fór líka í óperuna áðan, loksins! Fór á sama dúó og er í gangi í óperunni heima. Cavalleria Rusticana fyrir hlé. Lélega leikstýrt, illa leikið og óhentugasta leikmynd sem ég hef séð. Söngurinn alveg yfir meðallagi svosem en allt hitt skemmdi virkilega fyrir. Ég vil líka að óperusöngvarar verði skikkarði á Stage Combat námskeið, þó ekki væri nema bara til að læra að slá fólk á sviði! Þeir settu hendina á hinn aðilann og tóku sér góðan tíma í að miða rétt svo þeir myndu örugglega hitta hendina á sér en ekki manneskjuna sem þeir áttu að vera að lemja. Margt svona sem var alveg hryllingur. Og manni fannst oft eins og söngvurunum liði ekki vel með það sem þeir voru að gera á sviðinu, og þá líður áhorfandanum ekki heldur vel.
Pagliacci var svo muuuun betri. Samt sami leikstjóri. Er bara eins og það hafi verið einbeitt sér að þeim hluta. Betri söngur í gangi þar og leikur líka, já bara nokkuð góður leikur. Var sett upp í 1970-umgjörð og að þetta væru comedians og það gekk bara alveg upp. Báðar óperurnar voru sungnar á ensku og var það vel þýtt en ég hefði viljað sjá seinna verkið á ítölsku fyrst. Mjög skemmtilega þýtt samt og þýtt til að fitta þessa umgjörð. Og ég náði að gráta smá þannig þetta var fínt eftirmiðdegi í óperunni.

Fórum nokkur í gærkveldi og fengum okkur að borða á Indian Jazz Resturant í gær sem er rétt hjá skólanum og hann var mega mega góður! Og ekkert svo dýr! Fer örugglega þangað aftur. Fórum svo í partý til bekkjarfélaga okkar hennar Selmu, en þegar við loksins fundum staðinn (en hún var alltaf að gefa okkur vitlausar upplýsingar) voru Selma og Anna orðnar vel fullar og drápust svona klukkutíma síðar. Þá héldu allir niður í Camden á klúbba og pöbba en ég ákvað að fara heim. Strætóinn átti að stoppa á Kings Cross en hann fór ekkert þar framhjá þannig ég endaði ein niðri á Oxford Street kl. 2:00 um nótt. Fann sem betur fer fljótlega strætóinn MINN sem er nr. 390 og stoppar svona 300 m frá húsinu mínu. Einhvern vegin virðist ég bara lenda í því að enda ein niðri í miðbæ í útlöndum!

Hápunktur helgarinnar var indverski staðurinn.

Og núna sturta, DVD og svo sofa.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband