Nýtt

Er í miðannarfríi og hef því ákveðið að gefa mér tíma til að blogga.

Það er margt að frétta síðan síðast, margar ákvarðanir verið teknar og skref stigin til að gera þær að veruleika.Ég hef ákveðið að hætta í skólanum og flytja aftur heim. Fyrir því eru margvíslegar ástæður en stærsta ástæðan er þó að ég ætla að koma mér af stað í námið sem ég hef alltaf ætlað að enda í - stjórnun.

Málið er að mér finnst gaman að leika, mjög mjög gaman, en þegar ég fór að hugsa út í það að vinna við það, alveg virkilega að ímynda mér fullkomlega hvernig það yrði, þá sá ég að mig langar ekki að vinna við það og að í raun hafði ég aldrei ætlað mér að vinna við það! Í heilanum á mér var næsta skref alltaf að fara í stjórnunarnám. Það sama var uppi á teningnum þegar ég var í söngnum.

Það er unaðsleg ró sem hefur færst yfir sálartetrið mitt eftir þessa ákvörðun.

Ég sé samt alls ekki eftir þessu ári hérna og í raun held ég að ég hefði aldrei náð að taka þessa ákvörðun fyllilega nema af því að ég fór í þennan skóla þar sem var sparkað í rassgatið á manni og sagt manni að drullast til að fullorðnast og taka ábyrgð á lífi sínu og gjörðum. Það er algerlega undir okkur sjálfum komið hvernig lífi við munum lifa.Okkur hefur líka verið kennt að gera greinarmun á draumum og því sem við getum látið verða að veruleika, og gera okkur grein fyrir að suma drauma er hægt að gera að veruleika ef við hættum að einblína á hindranirnar að þeim og einbeitum okkur að þeim sjálfum í staðinn.

So home sweet home here I come :o)Meira að segja ein ferðataska af dóti komin á klakan og búið að sækja um í HÍ í viðskiptafræði - stjórnun og forysta.Þetta er líka fyrsta ákvörðunin sem ég tek án þess að vera að hugsa um að reyna að þóknast einhverjum :o) Skál fyrir því!

Með deginum í dag eru 31 dagur í að ég komi heim. Á þessum mánuði mun ég leika í átta verkefnum! Er með nett stress í gangi því maður þarf líka að sinna fögunum sem maður er í, t.d. listasögu og voice, en það verða lokaverkefni í báðum. Svo er ég að læra nýtt lag í söng og þarf að búa til karakter í kringum það og svo að gera stage combat atriðið klárt með texta, búningum og safe slagsmálum! Þannig það verður nóg að gera!

Svo held ég að ég leyfi mér að kaupa mér eina skó áður en ég fer heim eða fá þá í afmælisgjöf! Þeir eru truflaðir!

1113007020m1

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Vaknaði svo í dag og þá voru íslenskar pylsur með öllu á boðstólnum og hrísbitar með lakkrís í :o) Hann Unnar Geir kann þetta sko ;o) Maður fór alveg heim í huganum!

En b.t.w. ef þið vitið um einhvern sem vantar herbergi í London þá þarf ég að losna við mitt. Við erum í norður London, rétt hjá Camden, og maður er svona 15 mín með túbunni niður í bæ. Þetta er humongus herbergi, eiginlega bara lítil íbúð inni í íbúð. Mjög góð fyrir fólk sem þarf pláss eða par eða vini sem vilja deila herbergi. Ef þið vitið um einhvern/einhverja þá segið frá þessu herbergi ;o)

En held ég fari þá að þrífa þetta herbergi en það ber þess sterk merki að það sé búið að vera frí þar sem algert afslappelsi var í hávegum haft!

Sul sul! 


Allt/ekkert

Jæja, kannski komin tími á blogg. Hef ekki einu sinni alminnilega afsökun. Hef haft allan tíman í heiminum til að gera hvað sem er en eyði honum að mestu á Facebook...en samt ekki. Er alltaf tengd en ekkert endilega að gera neitt þar.

Og ekki er ég að læra. Er komin soldið eftir á með allskonar lærdóm sem ég á að vera löööööngu búin að gera! En það hefur reyndar ekkert komið að sök, bara verst fyrir mig.

Er svo allt í einu núna komin með hlutverk í átta verkum og svo hljóðmaður í einu verki í viðbót þannig ég held að næstu 5 vikur verði hektískar! Bara fimm vikur í próf og svo ein assessment vika og þá er komið frí og þá kem ég heim á klakann kæra!!!! Er farin að hlakka svo ótrúlega fáránlega til! Sakna allra og alls svo mikið núna seinustu vikur. Held að héðan í frá fari ég heim í hverju einasta milliannarfríi....þeas ef að fjárhagurinn leyfir, sem hann skal bara gera!

Hélt ég myndi ekki fá svona mikla heimþrá. Þetta er heldur ekkert svona heimþrá þar sem ég engist af söknuði. Meira bara svona subtle constant ljúfsár söknuður. Meira sár en ljúfur þó. Og ekki þannig heimþrá að mig langi að flytja heim. Langar bara að knúsa og hlæja með fólkinu mínu og vinum, fara á djammið, á Ak., í leikhús, í óperuna, á tónleika og bara þetta daglega stúss sem var á manni.

Lífið hefur breyst og ég var eiginlega kannski bara að taka eftir því núna.

En það er engu að síður mjög gaman að vera hérna úti. Mikið félagslíf búið að vera á manni. Kosningarvaka í Oxford, P!nk-tónleikar með Fanney, Afmælispartý, hárkollupartý, freaky-fairytale-partý, leikhúsferð og óperuferð. Og næstu helgi er það partý hjá Rose-Brufordurum. Maður ætti ekkert að vera að kvarta!

Ég var tekin fyrir í tíma um daginn. Eða semsagt hvernig ég hugsa. Það var mjög áhugavert og ég komst að ýmsu nýju og játaði margt fyrir sjálfri mér um mig sem ég hef alveg vitað en afneitað. Er ekki frá því að eftir það sé mun auðveldara að hugsa. Gott að taka svona smá vorhreingerningu í heilanum.

Svo er ég komi með fullkomið ógeð af fötunum mínum. Held ég haldi bara swish-partý þegar ég kem heim! Er alveg á gubbunni en veit samt að ég á fullt af fötum og mörg hver fín. Er bara með svo sterkan komplex að fá ný föt og vera ekki oft í sömu fötunum! Bjánalegt og ekki vænlegt fyrir fátækan leiklistarnema!

Er alveg að verða bil á krónunni! Djöfuls helvítis helvíti! Er farin að pæla í því að fá mér herbergisfélaga því leigan mín myndi minnka talsvert með því eeeeeen þá væri prívasíið fokið út í veður og vind. Spurning hvort það bítti nokkru máli!

En þrátt fyrir allar þessar distraksjónir þá reynir maður að halda sig við skólaefnið enda mikið að gera svona á seinustu önninni sem er eðlileg á fyrsta ári. Erum að fara að skila lokaverkefni í listasögu, fá leikara-qualification í Stage Combat ( sem þýðir að við þurfum að gera 3 mín atriði með fist fight, skylmingum, búningum og texta) og erum að fara að setja upp leikrit sem verður samt sýnt eftir fyrstu tvær vikurnar á næstu önn. Og svo náttúrulega blessað prófið, Acting assessment, söngurinn og guð má vita hvað! LOVE IT!

En þetta er leiðinlegt blogg....mér leiddist meira að segja á meðan ég var að skrifa það. Vildi bara láta vita aðeins af mér. Reyni núna að muna eftir blogginu mínu en lofa engu!

Sul Sul!


Páskar


Já þá eru bara komnir páskar!

Ég vaknaði um 11-leytið og þá var Unnar byrjaður að kokka dýrindis kjúklinga - annan appelsínukjúkling og hinn kryddkjúkling - báðir smökkuð afbragðsvel!

Í mat voru íbúar Framabrautar mínus Axel plús Sessý, Haraldur og frænka hans og svo hún Vala mín. Haraldur og frænka, sem kallaðist Kami ef ég skildi rétt, komu svo með jarðaber og súkkulaði meðferðis sem eftirrétt. Það bragðaðist líka afbragðsvel!

Svo er maður bara búin að liggja í súkkulaðimóki í dag, ýmist liggjandi hálfrænulaus eða hoppandi og dansandi um öll gólf - enginn millivegur!

Var komin í alvarlega nammiþörf en hef nú útrýmt henni allvel.

Gleðilega páska!!!!

(í hvert skipti sem ég hef skrifað gleðilega í dag hef ég alltaf fyrst skrifað gleiðilega og þurft að stroka út og byrja aftur. Hvað er það?)


Recap!


Já góðan bandóðan daginn!

Ég er semsagt lúðinn sem þykist vera bloggari en bloggar svo ekkert í mánuð (mínus einn dag)!!!

Reyndar er ég búin að vera frekar andlaus. Var bara í fríi og svo bara að kick-starta önninni og svona (allt mjög sýnilegar og þægilegar afsakanir!).

Látum okkur nú sjá, hvað er búið að vera að gerast hérna hjá manni í útlöndum...

Fór til annarra útlanda í fríinu. Fór til Vínar að hitta hana Erlu Dóru mína og það var mega næs. Átti lítinn pening en náði að gera mega mikið, auk þess sem Erla Dóra er meistarakokkur og alls ekki löt við að sýna snilli sína. Svo var borgin skoðuð svona léttilega, heimsótt Beethoven, Strauss, Schönberg, Brahms og Schubert (frekar en Schumann held ég) í kirkjugarðinn sem er með fleiri gröfum en íbúar Vínarborgar eru. Svo var borðað Vínarschnitzel með vínversku kartöflusalati sem mér fannst alveg ágætt. Fórum 2x í óperuna á Falstaff, sem var bara svona semi-góð, og svo Eugene Onegin sem var með mjög fínum söngvurum og nokkuð töff leikmynd en algerlega laus við leikstjórn sem var soldill galli. Á Evgení Ónegín var líka crazy-gaur fyrir aftan okkur sem hló hrossahlátri á öllum viðkvæmustu augnablikunum og talaði svo slatta við sjálfan sig. Fyrir framan okkur voru svo tveir gaurar sem voru pínu pirraðir á þessu fyrir hlé en höfðu svo grenilega verið að vinna sig upp í pirrleika í hléinu því eftir hlé mátti enginn hósta hinum megin í salnum án þess að þeir hvesstu augun í átt að þeim og skutu eldingum með þeim! Ég hélt ég myndi pissa á mig af hlátri! Þá var hvesst augun á mig...svo hló crazy gaurinn aftur og þá var þeim öllum lokið og þeir hristu hausana sína restina af sýningunni.
Svo fórum við og löbbuðum meðfram Dóná og við Erla Dóra ákváðum að í framtíðinni myndum við eiga saman sumarhús þarna. Verð að kíkja þarna einhverntíman yfir sumartíma. Var ekkert smá rómantískt og kósí :o) Plús það að það var hægt að fá mega vellyktandi og girnileg rif á veitingastað þarna við fljótið! Smakkaði þau því miður ekki en ég hef fulla trú á þeim!
Hitti líka Svenna, Elínu og Júlla og við borðuðum saman mjög góðan ítalskan og fórum svo í pool mínus Svenni plús Rannveig. Ég grúttapaði!
Við skoðuðum líka Schönbrunn og það var mjög fróðlegt. Voðalegt að ímynda sér hvernig það er að búa svona, að vera aðalsborinn. Hlýtur að vera hroðalega spes, sérstaklega ef þú giftist inn í þetta! Mæli með að skoða þessa höll. Svo er hallargarðurinn æði líka. Við ákváðum að labba upp að Gloríunni og þegar við vorum rétt svo komin fyrsta spölinn þá brast á haglél af innilegum krafti! Við vorum ekki vel klædd! En við komumst upp og um leið og við stigum inn á kaffihúsið í Gloríunni þá hætti haglið og ekki sást meira til neinnar gerðar af snjó eftir það! Á leiðinni niður urðum við svo vitni að mjög lífsglöðu barni sem hljóp á hundarð niður brekkuna hrópandi AAAAAAAAAAAA alla leiðina og naut þess svo að við gátum ekki annað en grátið úr hlátri!
Svo var kíkt á markað, aðeins í búðir og haft það næs. Held ég sé ekki að gleyma neinu mikilvægu.

Svo þegar ég kom heim þá beið Fanney mín hérna og við áttum góða daga saman við dvd-gláp, spjall og bæjarrölt, já og borða góðan mat :oP Það voru æðislegir dagar! Sakna hennar stundum svo mikið, en þetta er víst bara hluti af því að fullorðnast.

Svo byrjaði skólinn á sprengingu því við þurftum að taka til í skólanum út af einhverri nefnd sem metur skólann svo við höldum áfram að geta kallað okkur háskóla jú og svo við komumst nær því að vera mega últra heavy háskóli ;o) Skilst að þetta sé eini skólinn í Bretalandi sem er með þessa háskólaskilgreiningu, sem ég veit ekki hver er en ætti kannski að reyna að komast að hvað felur í sér, og það er víst voða merkilegt.....kannski ég reyni bara að komast að því hvað er verið að meina áður en ég tala meira um þetta :oÞ Svo æfðum við líka Gilitrutt og Affirmation til að sýna nefndinni hvað við erum klár. Fengum í framhaldi að vita að það er 99% öruggt að Gilitrutt fari á Edinborgarhátíðina í sumar! Jibbí!

Já, skólinn er semsagt að fara á Edinborgarhátíðina, eða réttara sagt þá setjum við á fót starfandi leikhús sem fer á hátíðina og bara við nemendurnir sjáum um að reka leikhúsið og redda öllu sem þarf að redda fyrir svona ferð. Þetta er því alfarið á okkar ábyrgð og við lærum þá bara algerlega beint í æð að reka leikhús og koma því á milli staða. Voða hentugt! Svo er bara að bíða og vona að maður fái eitthvað bitastætt (svona miðað við að vera fyrsta árs nemi) í stóra leikritinu sem við förum með, en það verður The Caucasian Chalk Circle eftir Brecht og verður það æft í júní og júlí og svo bara hátíðin! Yeah baby!

Annars erum við á fyrsta ári núna að greina Still Life eftir Noel Coward sem við munum líka setja upp í sumar en það fer ekki á hátíðina því við erum bara kjánalegir fyrsta árs nemar sem kunna ekki neitt! Nei djók! Nema að það fer ekki á hátíðina en við munum sýna það hérna í London.

Eins og sjá má er allt á fullu. Ég reyndar sé ekki fram á að vera í eins mörgum verkefnum og á seinustu önn en er þó komin með tvö. Annað þeirra er að syngja Violettu í Brindisi! Hjálpi mér allir heilagir! Það verður samt bara gaman og ég ætla að massa það :o)

Já lömbin mín nær og fjær, það er svo sannarlega gaman að lifa!


Annarlok


Jæja þá er stærsta áfanga þessarar annar lokið! Prófdagurinn var í gær og gekk vonum framar. Prófdagurinn fer þannig fram að þær sýningar leikstjórnarnema sem komust inn á prófið eru sýndar allar í röð með einu hléi og á allt að ganga það smurt fyrir sig að áhorfendur eiga að geta labbað úr einu herbergi í annað og séð sýningu án þess að þurfa að stoppa mikið. Í gær voru níu sýningar í fjórum herbergjum og er því hluti af prófinu að við erum að ferðast með flött og fleira til leikmyndagerðar og props og tilheyrandi á milli herbergja og hæða án þess að áhorfendur taki eftir því. Þetta gekk mjög vel í gær og þurftu áhorfendur ekki að bíða mikið og oftast var litla biðin vegna þess að leikarar voru að hlaupa á milli sýninga og gera sig reddí sýningu eftir sýningu.

En eins og ég sagði þá gekk þetta smurt fyrir sig. Ég var að leika í þrem verkum og að setja upp eina leikmynd og smá að fara með hluti á milli hæða og gekk bara vel :o) Sýningarnar þrjár voru góðar þó að bæði Gilitrutt og Affirmation hafi verið betri. Hins vegar held ég að Battle of Bull Run hafi aldrei verið betri.

Núna er svo bara ein vika eftir af þessari önn! Í henni verður eitthvað verið að meta okkur í hinum og þessum tímum en ég hef engar áhyggjur af því þar sem þessi önn hefur gengið vel.

Og svo er það bara Vín! Oj hvað ég er farin að hlakka til! Alltaf gaman að heimsækja nýja staði og ekki verra ef að sá staður inniheldur fullt af skemmtilegu fólki ;o)

Í dag held ég svo upp á það að eiga frí með því að þrífa herbergið mitt og þvo smá þvott og skipuleggja aðeins og sortera.

Held að lífið gerist ekki einfaldara :o)


Swishing


Ég er með Swish á heilanum þessa dagana. Langar svo agalega í ný föt en á ekki krónu né penní né sent! Hef verið að skoða swishing-síður en finnst það allt líta út eins og maður þurfi að mæta með design-föt, sem ég á ekki til. Ég á samt fullt af flottu vintage. Hef reyndar fundið nokkur Swishing-partý sem er ekki ætlast til að maður komi með design en þau eru öll fyrir utan London. Kannski maður haldi bara sjálfur svona partý og bjóði stelpunum í skólanum og svo kannski Brufordurum bara svona til að fá eitthvað nýtt og svo bara til að belonga :o)

Annars er mér búið að leiðast mikið í dag. Er með það allsvakalegasta kvef sem ég hef fengið síðan ég var krakki. Stíflurnar grafnar djúpt í öllum holum andlitsins og hóstin rymur djúpt í myrkviðum brjóstkassans! Frekar nasty og ég er að troða saltvatnsupplausn í nefið og GSE með tei í líkamann og svo pektolín í og með. Er eitthvað að virka, bara ekki eins vel og ég hefði viljað!

Er búið að langa svo í föt í dag að ég saumaði mér eitt pils og fiffaði til 3 buxur sem ég var alltaf á leiðinni að breyta. Er því nokkuð sátt með dagsverkið :o)

Stalst síðan inn á Schuh-síðuna, en það er uppáhaldsskóbúðin mín, og lét mig dreyma! fann alveg nokkur stykki sem mig langar í NÚNA!

Kíkti því líka inn á H&M, Topshop og All Saints og skoðaði hvað á að vera inn í sumar. Held ég þurfi ekki að eyða fúlgum fjár til að geta fiffað fataskápinn til fyrir það :o)

Og bara 2 vikur í Vínarferð!!!!! Skúbbidí!!!!

Verið sæl!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband